Kosningar um sameiningartillögu

Almennt um kosningarnar

Kosningar um sameiningar sveitarfélaga fara fram í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Einfaldur meirihluti þeirra sem kjósa ræður niðurstöðu kosninganna í viðkomandi sveitarfélagi. Skipuð er sameiginleg kjörstjórn sem hefur umsjón með undirbúningi og framkvæmd kosninganna en heimilt er að skipa undirkjörstjórnir í hverju þeirra sveitarfélaga sem kosið er í.

Atkvæðagreiðsla skal standa í 14 daga hið minnsta. Sveitarstjórnir aðildarsveitarfélaganna ákveða á hvaða tímabili kosningarnar fara fram, en samstarfsnefnd um sameiningu mun leggja til að þær hefjist 5. september nk. og ljúki 20. september nk.

Kosningaréttur og kjörskrá

Kjörskrá er gefin út 20 dögum áður en kosning á að hefjast. Rétt til þátttöku í íbúakosningu eiga:

  1. íslenskir, danskir, finnskir, sænskir eða norskir ríkisborgarar sem náð hafa 18 ára aldri á lokadegi atkvæðagreiðslu og eiga skráð lögheimili í því sveitarfélagi þar sem íbúakosning fer fram 22 dögum áður en atkvæðagreiðsla hefst.
  2. erlendir ríkisborgarar, sem hafa átt skráð lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt fyrir lokadag atkvæðagreiðslu, og fullnægi að öðru leyti skilyrðum a-liðar.

Í aðdraganda kosninganna er hægt að sjá hvort og hvar kjósandi geti kosið á vef þjóðskrár. https://www.skra.is/folk/kjorskra-og-kosningar/hvar-a-eg-ad-kjosa/

Sveitarstjórn er heimilt að miða kosningaaldur í íbúakosningu við 16 ár, sbr. 3. mgr. 133. gr. sveitarstjórnarlaga. Nýti sveitarstjórn þessa heimild er miðað við aldur á lokadegi kosninga.

Kjörstaðir og póstkosning

Kjörstaðir verða auglýstir þegar nær dregur kosningum. Heimilt er að bjóða upp á færanlegan kjörstað og skal þá auglýst hvar kjörstaðurinn er á hverjum tíma.

Sjái íbúi sér ekki fært að mæta á kjörstað á því tímabili sem auglýst er, er hægt að óska eftir að greiða atkvæði með póstkosningu. Kjósandi skal þá hafa samband við skrifstofu þess sveitarfélags þar sem kjósandi hefur kosningarétt, gera grein fyrir sér með því að gefa upp kennitölu og óska eftir því að fá send kjörgögn til kjósanda á uppgefið heimilisfang eða netfang.

Nýti kjósandi sér rétt sinn til kosninga með póstkosningu þarf kjörseðill að berast kjörstjórn fyrir lokun kjörstaða síðasta dag kosningarinnar.

Aðstoð við kosningar

Kjósandi á rétt á að njóta aðstoðar aðstoðarmanns sem fylgir kjósanda á kjörstað eða fulltrúa kjörstjórnar.

Aðstoð skal aðeins veitt ef kjósandi getur sjálfur skýrt þeim er aðstoðina veitir frá því hvernig hann vill greiða atkvæði. Aðstoðarmanni kjósanda eða fulltrúa kjörstjórnar sem aðstoðina veitir er skylt að fara að fyrirmælum kjósanda og eru þeir bundnir þagnarskyldu.