Skjaldarmerki Íslands

Ákvörðun Skorradalshrepps um undirskriftasöfnun felld úr gildi

Innviðaráðuneytið hefur fellt úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Skorradalshrepps um að heimila undirskriftasöfnun vegna almennrar atkvæðagreiðslu um ákvörðun sveitarstjórnar um að hefja formlegar viðræður við Borgarbyggð um sameiningu sveitarfélaganna. Í áliti ráðuneytisins kemur fram að ákvörðunin, sem tekin var á fundi sveitarstjórnar þann 1. ágúst 2024, hafi ekki verið í samræmi við sveitarstjórnarlög.

Sveitarstjórn Skorradalshrepps samþykkti þann 4. júlí 2024 að hefja formlegar viðræður um sameiningu við Borgarbyggð. Þann 1. ágúst var tekið fyrir erindi frá íbúum um heimild til að hefja söfnun undirskrifta til að knýja fram almenna atkvæðagreiðslu um ákvörðunina skv. 108. grein Sveitarstjórnarlaga, sem sveitarstjórn samþykkti. Undirskriftasöfnunin fór fram 14. ágúst til 11. september 2024.

Innviðaráðuneytið hefur eftirlit með stjórnsýslu sveitarfélaga og getur fellt ákvarðanir sveitarstjórnar úr gildi ef þær eiga sér ekki lagastoð. Ráðuneytið tók stjórnsýslu Skorradalshrepps vegna málsins til formlegrar skoðunar og úrskurðaði þann 3. febrúar sl. að ákvörðun sveitarstjórnar um að leyfa undirskriftasöfnun skuli felld úr gildi.

Í úrskurðinum kemur fram að ráðuneytið telur að lagaskylda hvíli á sveitarstjórn að halda atkvæðagreiðslu um sameiningu eftir að ákvörðun um formlegar sameiningarviðræður er tekin og að sveitarstjórn hafi ekki vald til að falla frá viðræðum eftir að ákvörðunin er tekin.