Miðvikudaginn 27. ágúst var haldinn íbúafundur í Hjálmakletti í Borgarnesi þar sem tillaga um sameiningu Borgarbyggðar og Skorradalshrepps, álit samstarfsnefndar og fyrirkomulag íbúakosninganna 5.-20. september voru kynnt. Um 40 íbúar sóttu fundinn á staðnum og um 25 sátu fundinn í streymi á netinu.
Í lok fundarins var þátttakendum boðið að bera upp spurningar og sköpuðust líflegar umræður. Á fundinum komu meðal annars fram áhyggjur íbúa í Skorradalshreppi af því að utanaðkomandi aðilar séu að skrá sig í hreppinn til þess eins að hafa áhrif á kosningarnar og að spurningin um sameiningu eða ekki sameiningu hafi skapað gjá á milli íbúa með mismunandi skoðanir á málefninu. Óli Rúnar Ástþórsson, hreppsnefndarmaður tilkynnti að hann ætli að bjóða íbúum hreppsins til kaffisamsætis til að ræða málin í vinsemd og sporna gegn því að ólíkar skoðanir valdi sundrungu (sjá hér).