Stjórn til undirbúnings sameiningar Borgarbyggðar og Skorradalshrepps hefur verið skipuð og hafið störf. Fulltrúar Borgarbyggðar í undirbúningsstjórn eru Guðveig Eyglóardóttir, Ragnhildur Eva Jónsdóttir og Stefán Broddi Guðjónsson en Jón Eiríkur Einarsson, Kristín Jónsdóttir og Sigrún Þormar sitja í stjórninni fyrir Skorradalshrepp. Lilja Björg Ágústsdóttir sviðsstjóri er starfsmaður undirbúningsstjórnar.
Hlutverk undirbúningsstjórnar er að undirbúa gildistöku sameiningar sveitarfélaganna og stuðla að því að hún gangi snurðulaust fyrir sig. Undirbúningsstjórn gerir tillögu að samþykkt um stjórn sameinaðs sveitarfélags sem gildir þar til ný sveitarstjórn hefur sett sér samþykkt og tekur ákvarðanir um fjárhagsmálefni eftir því sem við á. Undirbúningsstjórn skal einnig taka saman yfirlirt yfir samþykktir og gjaldskrár sveitarfélaganna og hefja undirbúning að samræmingu þeirra. Ákvarðanir undirbúningsstjórnar eru staðfestar af ráðherra sveitarstjórnarmála.
