Markmið
Markmið verkefnisins er að undirbúa tillögu að sameiningu sveitarfélaganna Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar til afgreiðslu sveitarstjórna og í kjölfarið atkvæðagreiðslu meðal íbúa í samræmi við 119. gr. sveitarstjórnarlaga.
Markmið samstarfsnefndar er að að draga upp skýra mynd af því hvernig sameinað sveitarfélag gæti litið út og draga fram kosti og galla sameiningar til að auðvelda kjósendum að taka afstöðu til spurningarinnar um sameiningu.
Hvers vegna sameiningarviðræður?
- Farsæl samvinna sveitarfélaganna.
- Sameiginlegir hagsmunir á sviði umhverfis- og auðlindamála.
- Von um aukinn slagkraft í byggða-, atvinnu- og samgöngumálum.
- Möguleikar á að bæta þjónustu og efla stjórnsýslu.
- Viðmið um lágmarksíbúafjölda í sveitarstjórnarlögum
Ákvörðun um könnun
Sveitarstjórnir viðkomandi sveitarfélaga taka ákvörðun um að kanna möguleika á sameiningu og skipa samstarfsnefnd um sameiningu sem í sitja a.m.k. tveir fulltrúar hvers sveitarfélags. Samstarfsnefnd hefur sjálfstætt umboð að lögum og starfar óháð hlutaðeigandi sveitarstjórnum.
Mótun tillögu og álits samstarfsnefndar
Samstarfsnefnd hefur mikið frelsi um það hvernig hún hagar störfum sínum. Áhrif sameiningar eru greind og dregin upp mynd af því hvernig sameinað sveitarfélag gæti litið út.
Samstarfsnefnd mótar tillögu að framtíðarsýn og áherslum fyrir sameinað sveitarfélag og leitar eftir sjónarmiðum og hugmyndum íbúa, starfsmanna og annarra hagsmunaaðila við undirbúning tillögunnar. Samstarfsnefnd nýtur aðstoðar ráðgjafa KPMG við vinnu sína.
Tillagan og helstu forsendur hennar eru kynntar íbúum í a.m.k. 20 daga fyrir kosningar.
Kosningar
Kosningar fara fram í hverju sveitarfélagi fyrir sig samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórna. Kosningin er bindandi. Gert er ráð fyrir að kosningar fari fram 5.-20. september 2025. Skipuð er sameiginleg kjörstjórn sem hefur umsjón með kosningunum. Kjörstjórnir sveitarfélaganna sjá um framkvæmd og talningu.
Innleiðing breytinga
Ef sameining er samþykkt skipa sveitarstjórnirnar stjórn til undirbúnings nýs sveitarfélags. Undirbúningsstjórn semur m.a. samþykkt um stjórn og fundarsköp hinnar nýju sveitarstjórnar og tekur ákvarðanir um fjárhagsmálefni hins nýja sveitarfélags. Ákvarðanir eru staðfestar af sveitarstjórnarráðuneyti. Undirbúningsstjórn gerir jafnframt tillögu til ráðuneytisins um fyrirkomulag kosninga til sveitarstjórnar og gildistöku sameiningar.
Gildistaka og nýtt sveitarfélag
Ný sveitarstjórn tekur við stjórn nýs sveitarfélags 14 dögum eftir kjördag. Sveitarstjórn hefur fullt vald í málefnum nýs sveitarfélags og meðal fyrstu verkefna er að samþykkja reglur og gjaldskrár fyrir hið nýja sveitarfélag og að velja því nafn.